FOSS

Mikið fjölmenni safnaðist saman í ágætis veðri á Selfossi í dag til að taka þátt í kröfugöngu sem stéttarfélögin á Suðurlandi stóðu fyrir í tilefni af 1. maí, á alþjóðlegum baráttudegi verkafólks. Fjöldi fólks mætti á hátíðardagskrá Hótel Selfoss enda kjaramál ofarlega í huga fólks þessa dagana.
Yfirskrift dagsins var Jöfnum kjörin – Samfélag fyrir alla og  er greinilegt að þessi yfirskrift átti góðan hljómgrunn hjá fólki.

Gangan hófst við Austurveg 56 og gengið var að Hótel Selfoss þar sem boðið var upp á veitingar og hátíðardagskrá á vegum stéttarfélaganna á Suðurlandi. Aðalræðumaður dagsins var Magnús Már Guðmundsson, framkvæmdastjóri BSRB og Álfheiður Österby námsmaður.

Skemmtiatriði dagsins voru frá Leikfélagi Selfoss sem flutti atriði úr sýningu sinni Á vit ævintýranna og systurnar Unnur Birna og Dagný Halla Björnsdætur sem fluttu nokkur lög.
Í Sleipnishöllinni var ungviðinu boðið á hestbak og var mikil ásókn í það en félagar úr þeirra röðum fóru einnig í fararbroddi kröfugöngunnar.

Baráttudagur verkalýðsins – Árborg 1. maí 2019 Magnús Már Guðmundsson, framkvæmdastjóri BSRB 
 
 
Kæru félagar – Til hamingju með daginn! Það er mér mikill heiður að standa hér í dag með ykkur öllum og taka þátt í þessari skemmtilegu hátíðardagskrá.  
 
En við stöndum hér í dag – saman – til að berjast fyrir bættum kjörum og bættum hag, og til að berjast gegn misrétti og óréttlæti, á vinnumarkaði sem og í einkalífi. Við stöndum saman hér í dag líkt og við launafólk höfum staðið saman í heila öld. Við stöndum hér til að krefjast breytinga á samfélaginu okkar. 
 
Eitt af því sem við viljum breyta er vinnutíminn. Hann hefur verið eitt af aðalbaráttumálum verkalýðshreyfingarinnar frá upphafi. Við höfum náð árangri í baráttunni en í seinni tíð hefur okkur miðað sérstaklega hægt. Afraksturinn af því er að flestir búa við sama vinnutíma og fyrir tæpri hálfri öld. Á sama tíma hafa kröfurnar til launafólks breyst. Við búum ekki lengur í sama samfélagi og foreldrar okkar, afar okkar og ömmur ólust upp í.  
 
Við þekkjum flest afleiðingarnar af þessum aukna hraða og álagi í samfélaginu. Veikindi tengd kulnun og streitu hafa aukist verulega. Þetta hefur ekki bara áhrif á þá sem fyrir því verða heldur hefur þetta einnig kostnað í för með sér fyrir samfélagið allt.  
 
BSRB hefur undanfarin ár staðið fyrir tilraunaverkefnum um styttingu vinnuvikunnar með Reykjavíkurborg og ríkinu. Með því að stytta vinnuvikuna í 36 stundir tókst að draga úr streitueinkennum og einkennum kulnunar. Það dró einnig úr fjarveru starfsmanna vegna veikinda. Á samanburðarvinnustöðum þar sem vinnuvikan var óbreytt hélt þróunin hins vegar áfram í sömu átt og áður. Þar reyndist starfsfólki sífellt erfiðara að samþætta fjölskyldulífið og vinnuna. 
 
Nú hafa félagsmenn í stærstu verkalýðsfélögunum á almenna markaðinum samþykkt svonefnda Lífskjarasamninga. Þar er að finna fjölmörg atriði sem geta bætt lífskjör launafólks og því hljótum við öll að fagna. Eitt af því sem þar má finna eru ákvæði um styttingu vinnuvikunnar.  
 
Þrátt fyrir að þessir samningar hafi verið samþykktir eru enn stórir hópar með lausa samninga. Þeirra á meðal eru nær allir opinberir starfsmenn. Það er fólkið sem sinnir mikilvægri almannaþjónustu. Umönnunarstörfunum, kennslunni, löggæslunni og öllum hinum störfunum sem samfélagið getur ekki verið án.  
 
Þetta eru störfin þar sem álagið og einkenni kulnunar eru sífellt að aukast. Þessir hópar gera þá augljósu kröfu að við semjum um styttingu vinnuvikunnar í þeim kjarasamningsviðræðum sem nú eru í gangi og það ætlum við að gera. 
 
Jöfnuður hefur verið lykilstef í baráttu verkalýðshreyfingarinnar frá upphafi. Baráttan fyrir samfélagi þar sem þar sem allir eiga sinn sess og njóta virðingar. Við höfum ekki alltaf haft erindi sem erfiði í þessum efnum. Nú er hins vegar komið að ögurstundu – ekki bara hér á Íslandi heldur alls staðar í heiminum – um hvort við berum gæfu til að tryggja að enginn gleymist í lífsgæðakapphlaupinu.  
 
 
 
 
Áskorunin framundan er að allir rói í sömu átt að félagslegum stöðugleika. Það er ljóst að launafólk mun ekki eitt axla þá ábyrgð á meðan aðrir skara eld að eigin köku. Stjórnvöld þurfa að bæta landsmönnum upp þær skerðingar sem áttu sér stað í velferðarkerfinu eftir hrun.  Umræða um einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu heldur áfram þrátt fyrir að það sé löngu ljóst að það er þvert á vilja þjóðarinnar.  
 
Almannaþjónustan á að vera rekin á þeim grunni að einstaklingar greiði inn eftir efnum og taki út eftir þörfum. Við sættum okkur ekki við samfélag þar sem hinir efnameiru geta keypt sér forgang á nauðsynlega þjónustu. Það er óásættanlegt að fjármunir sem verða til við þjónustu við sjúklinga renni í vasa einkaaðila með arðgreiðslum. Einkarekstur dregur ekki úr kostnaði hins opinbera.  
 
Stjórnvöld verða að efla heilbrigðiskerfið á félagslegum grunni en ekki á grundvelli hagnaðarsjónarmiða þeirra sem vilja standa í einkarekstri. Forsenda þess er sú að starfsumhverfið sé gott svo starfsfólkið geti veitt góða þjónustu. Við eigum frábært starfsfólk í heilbrigðiskerfinu og við þurfum að hlúa að þeim svo þau geti hlúið að okkur. 
 
Þrátt fyrir að fyrsta ákvæði um launajafnrétti hafi verið bundið í lög fyrir 65 árum hefur okkur enn ekki tekist að útrýma misrétti á vinnumarkaði. Við eigum að útrýma launamuni kynjanna og tryggja jafnrétti á vinnumarkaði í eitt skipti fyrir öll. Ekki bráðum. Ekki á næstunni. Heldur núna!    Við verðum að skapa samfélag þar sem störf eru metin að verðleikum, samfélag þar sem allir njóta sömu virðingar, möguleika og tækifæra óháð kyni, fötlun, uppruna, kynhneigð, kynvitundar, kyneinkenna, kyntjáningar, aldri, búsetu, lífsskoðunar, félagslegri stöðu eða efnahag. 
 
Við höfum ýmis tæki til að stuðla að jafnrétti á vinnumarkaði. Nú þegar stjórnvöld hafa lofað að lengja fæðingarorlofið í tólf mánuði verða sveitarfélögin að taka næsta skref og tryggja dagvistun fyrir börn strax og fæðingarorlofi lýkur. Við þurfum að viðurkenna hversu mikla ólaunaða vinnu konur inna af hendi og auka framlög til heilbrigðis- og velferðarmála til að létta álagi af konum.  
 
Að sama skapi þarf að endurmeta laun kvennastarfa út frá raunverulegu verðmæti þeirra og þeirri verðmætasköpun sem störfin skila. Þessi vítahringur er ekkert náttúrulögmál heldur mannanna verk – og því má breyta. 
 
Við vitum öll hversu mikilvæg samstaðan er launafólki. Án hennar hefðum við ekki þau réttindi sem við teljum sjálfsögð í dag. Í dag þykir okkur sjálfsagt að eiga samningsrétt og veikindarétt. Okkur þykir eðlilegt að fara í fæðingarorlof, eiga launað orlof og margt fleira. Staðreyndin er sú að það hefur í mörgum tilvikum kostað miklar fórnir og oft hörð átök að tryggja launafólki þessi réttindi. 
 
Þó við höfum náð miklum árangri í starfi verkalýðshreyfingarinnar er líka margt óunnið. Þessi barátta fer ekki bara fram við samningaborðið eða á fundum með stjórnvöldum. Við tökum öll þátt. Við tökum þátt í baráttunni fyrir bættum lífskjörum með því að vera í stéttarfélögum og taka þátt í starfsemi þeirra. Við tökum þátt með því að taka að okkur að vera trúnaðarmenn á vinnustöðum. Við tökum þátt með því að kjósa um samninga og forystufólk okkar félaga. Og við getum líka tekið þátt með því að benda á það sem fer úrskeiðis á vinnustaðnum. Þeir sem reyna óréttlæti eða upplifa vandamál á eigin skinni geta vakið athygli á því. Þeir sem verða vitni að vandamálum geta líka bent á þau. Þannig getum við lagt okkar af mörkum til að aðrir 
 
 
 
lendi ekki í því sama. Það gerum við með því að hafa samband við okkar stéttarfélag sem grípur til aðgerða. Saman breytum við samfélaginu!  
 
Í dag, á baráttudegi verkalýðsins, fögnum við þeim sigrum sem launafólk hefur náð með sameiginlegri baráttu fyrir bættum kjörum. En við erum líka hér til að sýna samstöðu og sýna að við erum tilbúin að halda baráttunni áfram. Við ætlum okkur að halda áfram að jafna kjörin og tryggja að hér á Íslandi verði réttlátt samfélag fyrir okkur öll. Þess vegna verðum við að standa þétt saman í baráttunni áfram.  
 
Kæru félagar, til hamingju með daginn! 

Kæru félagsmenn og fjölskyldur og aðrir gestir.

Ég vil byrja á að óska ykkur til hamingju með verkalýðsdaginn.

 

Það er mér mikill heiður að fá að koma hér fram á þessum merkilega degi og flytja nokkur orð fyrir ykkur. 

 

Eitt af því sem mér leiðist mjög við ræður, eru þegar þær eru langar og því ætla ég að hafa þetta hæfilega stutt.

 

Ég heiti Álfheiður Østerby og er að ljúka stúdentsprófi núna í vor frá Fjölbrautaskóla Suðurlands. 

 

Annars er ég bara 19 ára krakki frá Þorlákshöfn, þar sem ég bý. 

 

Ég er afar stolt yfir því að vera frá Þorlákshöfn. Þar býr margt gott fólk og manni líður vel þar. Maður er hluti af einni heild og fær það utanumhald sem er svo nauðsynlegt fyrir hverja manneskju – það er gott að eiga góða að. Við stöndum saman. Við sem búum í Þorlákshöfn erum Þorlákshöfn. Oft er sagt að það þurfi heilt þorp til að ala upp manneskju; og fyrir mér var það þorp Þorlákshöfn. Ég er ógurlega þakklát fyrir að hafa alist þar upp og ekki síður þakklát fyrir að móðir mín, sáluga, flutti með okkur systkinin þangað fyrir rúmum 11 árum. Því er ég líka alveg sammála því að segja að hamingjan sé þar, að hamingjan sé í Þorlákshöfn.

 

Ég hef svosem ekki lifað lengi. Ég er námsmaður og er því mín reynsla af vinnumarkaði bundin sumarstörfum og vinnu meðfram námi. Eins og ég sagði áður, þá er ég bara krakki. Ég er bara rétt að byrja líf mitt. En ég veit samt hvað er mikilvægt í lífinu. Til dæmis eru mín gildi í lífinu að verja tíma með fjölskyldunni minni og vinum. Það dýrmætasta í heiminum er kærleikurinn. Og elska ég fjölskylduna mína ógurlega mikið. Ég vil lifa, vera til, geta gert það sem mig langar. Hlaupið ef mig myndi langa til. Hlægja og brosa. Gera það sem gerir mig hamingjusama. Fylgja draumum mínum -  og lifa lífinu. 

 

En það sem mér finnst mikilvægast og vera grunnurinn að öllum tilgangi okkar hérna á jörðinni, er að bæta heiminn.

 

Það er bæði mikilvægt og nauðsynlegt að stöðugt sé staðið vörð um kjaramál verkamanna og þau tryggð með kjarasamningum. Kjaramál verkamanna er að sjálfsögðu ekkert annað en lífskjör manna. Hægt er að líta á baráttu verkalýðshreyfingarinnar síðastliðna mánuði og má þar auðveldlega sjá mikilvægi þeirrar baráttu. En með launahækkun og styttri vinnuviku er einmitt verið að stuðla að bættum lífskjörum manna. Við eigum að geta lifað lífinu. Búið í góðu og öruggu umhverfi. Getað varið tíma með fjölskyldu okkar og vinum. Átt tíma til að gera það sem okkur langar – og búið til ánægjulegar minningar. Við eigum að geta lifað lífinu – ekki lifa til að vinna heldur vinna til að lifa. Og því er starf verkalýðsfélaga afar mikilvægt til að staðinn sé vörður um réttindi okkar og þau séu virt.

 

Mikilvægi þessarar vinnu er ekki nýtt af nálinni. Það hefur lengi verið vitað að lífið eigi að einkennast af meiru en því einu að lifa af. Líklega má rekja það til réttlætiskenndarinnar í okkur, að verkalýðsfélögin voru stofnuð. Til dæmis þegar amma mín var ung, þá vann hún sex daga vikunnar. Í dag erum við með styttri vinnuviku og lengra sumarfrí en þá. Í dag höfum við rétt á veikindafríi og fæðingarorlofi, svo örfátt sé nefnt. Starf verkalýðshreyfingarinnar er heldur ekki á leiðinni að verða úrelt. Við munum stöðugt þurfa á henni að halda. Verkalýðshreyfingin er til þess að vernda fólkið, starfsfólkið. Og má það starf ekki falla í gleymsku né mikilvægi þess. 

 

Tímarnir eru alltaf að breytast. Og tímarnir breytast enn örar með tilkomu nýrrar tækni. Framtíðin mun gera kröfur um mikla aðlögunarhæfni, þar sem að margar breytingar munu eiga sér stað á skömmum tíma. Þar að auki mun skilgreining á störfum að öllum líkindum einnig breytast með samfélagslegu breytingunum á öld tækninnar. Því mun verða forsenda fyrir því að aðlagast skjótt fjölbreyttum aðstæðum, til að geta átt við breytingarnar. 

 

Mér sem ungri manneskju finnst nauðsynlegt að við stöndum einnig vörð um umhverfið í öllum þessum öru breytingum og að við stuðlum að sjálfbærni þess til framtíðar. 

 

Því skulum við á þessum degi, tileinkuðum verkalýðsfólki, standa vörð um mikilvægi þess að verkalýðsbaráttunni verði ávallt að halda áfram og að gildi hennar falli ekki í gleymsku í hugum okkar. Því við eigum rétt á því að geta lifað lífinu og átt okkur líf umfram vinnunnar. Við höfum rétt á því að geta varið tíma með fjölskyldu okkar. Við eigum að geta átt tíma í að gera það sem gefur líf okkar gildi, stundað áhugamál okkar, og geta notið þess að vera til. Á þessum degi skulum við vera stolt yfir því sem hefur verið áorkað. Við skulum standa saman á þessum degi, og einnig alla aðra daga, og stuðla þannig að áframhaldandi bjartri framtíð. 

 

Takk fyrir mig