01.maí 2025 -

„Við kom­um hér sam­an í skugga mik­illa átaka í heim­in­um,“ hóf Halla Gunn­ars­dótt­ir, formaður verka­lýðsfé­lags­ins VR, ávarp sitt á Sel­fossi á verka­lýðsdag­inn, eft­ir að hafa ávarpað viðstadda og boðið gleðilega hátíð.

„Stríð geis­ar í Evr­ópu og þjóðarmorð stend­ur yfir í Palestínu, í heims­hluta sem er all­ur meira eða minna sund­ur­skor­inn eft­ir stríðsátök. Hin póli­tíska heims­skip­an er að breyt­ast; Banda­rík­in, sem hafa verið í hlut­verki ein­hvers kon­ar heims­yf­ir­valds, eru hrein­lega að spila út,“ sagði formaður­inn því næst.

Kvaðst Halla þá ný­verið hafa sótt fund UNI Europa í Belfast á Norður-Írlandi, en þar fara evr­ópsk sam­tök stétt­ar­fé­laga í þjón­ustu­grein­um. „Það er þungt hljóð í mörg­um koll­eg­um okk­ar í Evr­ópu. Víða hef­ur staðið yfir skipu­lagt niður­brot á starf­semi stétt­ar­fé­laga og vegið er harka­lega að kjör­um og rétt­ind­um launa­fólks. Ekki þarf að leita lengra en til Finn­lands þar sem hægri stjórn Petteri Orpo hef­ur með bein­um hætti fært vald frá stétt­ar­fé­lög­um til at­vinnu­rek­enda og tak­markað verk­falls­rétt,“ sagði hún.

Um gerv­alla Evr­ópu hefði verka­lýðshreyf­ing­in veikst og aðild að stétt­ar­fé­lög­um dreg­ist sam­an. Af­leiðing­arn­ar væru væg­ast sagt hörmu­leg­ar og hér þyrfti ekki að not­ast við nein­ar ágisk­an­ir, hægt væri að horfa beint til þeirra landa þar sem niður­brotið hefði átt sér stað, sagði Halla ómyrk í máli.

„Ójöfnuður eykst, laun lækka, hin ofsa­ríku verða rík­ari, vinnuaðstæður verða verri, af­komu­ör­yggi og fé­lags­legt ör­yggi heyra sög­unni til. Sí­fellt fleiri búa við fá­tækt þrátt fyr­ir fulla vinnu.

Fólk vinn­ur fulla vinnu en hef­ur ekki í sig og á.

Fólk sem áður tald­ist til milli­tekju­hópa hætt­ir að geta lifað af laun­um sín­um.

Stuðning­ur við póli­tísk öfga­öfl eykst,“ hélt Halla ávarpi sínu til hinna vinn­andi stétta áfram.

Nú væri svo komið að starfs­bræður og -syst­ur í Evr­ópu horfðu mörg hver skelf­ingu lost­in upp á vinn­andi fólk fylkja liði um póli­tísk öfga­öfl, í von um betri tíð og bætt kjör. „Þessi stjórn­mála­öfl boða þjóðern­is­hyggju, hægri sinnaða efna­hags­stefnu, and­stöðu við aðgerðir gegn lofts­lag­breyt­ing­um og áherslu á svo­kölluð „hefðbund­in fjöl­skyldu­gildi“, sem öðru nafni nefn­ast stuðning­ur við hefðbund­in hlut­verk kynj­anna og andstaða við rétt­indi hinseg­in fólks,“ sagði VR-formaður­inn.

Í Aust­ur­ríki, Hollandi, Ítal­íu, Svíþjóð, Finn­landi, Slóvakíu, Lett­landi og Ung­verjalandi væru hægri öfga­flokk­ar annaðhvort í rík­is­stjórn eða í stöðu til að hafa gríðarleg áhrif á stefnu stjórn­valda. Í mörg­um öðrum lönd­um væru hægri öfga­flokk­ar með sterka stöðu í stjórn­mál­um og mætti þar nefna Þýska­land, Portúgal, Spán, Frakk­land og Bret­land.

„Þá má spyrja: hvað er að ger­ast í Evr­ópu?

Staðreynd­in er sú að niður­brot stétt­ar­fé­laga og virk niður­skurðar­stefna hef­ur leitt til þess að sí­fellt fleira fólk býr við af­komuóör­yggi. Nýr auður rat­ar til hinna rík­ustu á sama tíma og sam­fé­lags­leg­ir innviðir grotna niður. Fólk er hætt að geta gengið út frá því að lífs­gæðin fari sí­fellt batn­andi og að næsta kyn­slóð muni hafa það betra. Hið gagn­stæða er að ger­ast, lífs­gæðin fara dalandi og ungt fólk á sí­fellt erfiðara með að koma sér þaki yfir höfuðið, sækja sér mennt­un og hljóta tæki­færi á vinnu­markaði. Þetta ger­ist ekki í tóma­rúmi og þetta er ekki nátt­úru­lög­mál. Þetta er af­leiðing póli­tískra ákv­arðana og veld­ur því að fólk miss­ir trúna á lýðræðið,“ sagði Halla.

Kjara­bar­átta ís­lenskra stétt­ar­fé­laga hefði lagt grunn­inn að lífs­gæðum á Íslandi. Með sterk­um stétt­ar­fé­lög­um í virkri kjara­bar­áttu hafi venju­legt fólk fengið helg­ar­frí, sum­ar­frí, kaffi­hlé, af­markaðan vinnu­tíma, veik­inda­rétt, líf­eyr­is­rétt­indi og fæðing­ar­or­lof. Það hafi verið kjara­bar­átta sem gerði að verk­um að fleira fólk gat lifað af laun­un­um sín­um, haldið heim­ili og jafn­vel notið lífs­ins inn á milli. Þannig hafi hin ís­lenska millistétt orðið til. Í lönd­um þar sem stétt­ar­fé­lög færu dalandi færi millistétt­in hrein­lega minnk­andi. Fleiri byggju við kröpp kjör og auðstétt­in bólgnaði út.  

„Kæru fé­lag­ar, við erum ekki í vari fyr­ir þess­ari þróun.

Í grunn­inn ræður hér ríkj­um sama efna­hags­stefna og í öðrum lönd­um Evr­ópu sem miðar að því að láta launa­fólk, leigj­end­ur og skuld­ara taka skell­inn þegar illa árar, einkum í gegn­um háa stýri­vexti. Við búum enn við ein­hverja hæstu stýri­vexti á byggðu bóli, þeir eru hvergi hærri inn­an OECD og til að finna hærri stýri­vexti þarf að leita í lönd­um þar sem geisa stríð eða ann­ars kon­ar átök. Venju­legt fólk á Íslandi borg­ar og borg­ar og borg­ar. Rík­is­sjóður sit­ur uppi með allt of háa vexti og ungt fólk get­ur ekki komið sér þaki yfir höfuð. Há­vaxta­stefna er póli­tísk stefna. Um­samd­ar launa­hækk­an­ir mega sín einskis gagn­vart gríðarleg­um vaxta­kostnaði, sí­fellt hækk­andi húsa­leigu og hærra mat­vöru­verði.“

Sagði Halla stjórn­völd nú ætla sér að stytta bóta­tíma­bil at­vinnu­leys­is­trygg­inga um allt að ár í von um að með þeirri aðgerð þyrfti at­vinnu­laust fólk allt í einu ekki á fram­færslu að halda og að það að þiggja fjár­hagsaðstoð sveit­ar­fé­laga hvetti fólk til virkni. Stjórn­völd hefðu einnig gert að sín­um van­hugsaðar hug­mynd­ir Sam­taka at­vinnu­lífs­ins um aukn­ar vald­heim­ild­ir rík­is­sátta­semj­ara, sem vægju með bein­um hætti að samn­inga­rétti stétt­ar­fé­laga.  

„Gul stétt­ar­fé­lög halda áfram að poppa upp. Nýj­asta dæmið er Virðing, en einnig má minn­ast þess þegar Play stofnaði sitt eigið stétt­ar­fé­lag, því auðvitað er þægi­legra að semja við sjálf­an sig en við sam­tök launa­fólks. Og ekki get ég látið hjá líða að nefna Fé­lag svo­kallaðra lyk­ilmanna sem herj­ar á fé­lags­fólk VR í gegn­um svæsna markaðssetn­ingu með lof­orðum um sömu rétt­indi fyr­ir minni pen­ing. Allt eru þetta gervistétt­ar­fé­lög sem grafa und­an hinni sam­eig­in­legu kjara­bar­áttu, þeirri sömu og hef­ur lagt grunn­inn að lífs­gæðum á Íslandi,“ sagði Halla enn frem­ur.

Á Íslandi fynd­ust nú stjórn­mála­öfl sem döðruðu við hægri öfga­stefnu í von um að hún auki við fylgi mis­vitra stjórn­mála­manna. „Við eig­um að hafna henni al­farið og muna að okk­ar helsta vörn ligg­ur í sterkri og skipu­lagðri verka­lýðshreyf­ingu! En við þurf­um líka að hafna þeirri stefnu sem leiðir til þess að fólk finn­ur enga von hjá öðrum stjórn­mála­öfl­um. Við eig­um að hafna svelti­stefnu í öll­um sín­um birt­ing­ar­mynd­um. Við segj­um nei við háum vöxt­um og hol­ótt­um veg­um. Við segj­um nei við sprungnu heil­brigðis­kerfi og skól­um sem geta ekki tekið utan um börn í vanda. Og við segj­um nei við öll­um til­raun­um til að veikja stétt­ar­fé­lög á Íslandi. Þau eru okk­ur lífs­nauðsyn­leg,“ hélt Halla áfram.

„Kæru fé­lag­ar.

Hin hreyf­ing­in sem hef­ur byggt upp Ísland er kvenna­hreyf­ing­in og nú á kvenna­ári lít­um við um öxl og þökk­um öll­um þeim kon­um sem hafa með elju og þrot­lausri bar­áttu byggt upp betra Ísland en við hefðum nokkru sinni eign­ast hefði þeirra bar­áttu ekki notið við.

Sjálf er ég stolt af því að ræt­ur mín­ar liggja í kvenna­bar­áttu. Ég tók þátt í stofn­un Femín­ista­fé­lags Íslands fyr­ir rúm­um 20 árum síðan, þegar sam­fé­lagið hafði lít­inn skiln­ing á hug­tak­inu femín­ismi. Á vett­vangi þess tók­um við marga strembna slagi í sam­fé­lag­inu. Við reist­um kröf­ur um sýni­leika kvenna og þátt­töku þeirra í op­in­berri ákv­arðana­töku og kröfðumst þess að vinnu­fram­lag kvenna yrði metið að verðleik­um, sér­stak­lega þeirra kvenna sem sinna ólaunaðri vinnu og hefðbundn­um kvenna­störf­um á lé­leg­um kjör­um.

Við vökt­um at­hygli á skaðleg­um áhrif­um kyn­mót­un­ar þar sem stúlk­um og drengj­um er mark­visst kennt að hegða sér í sam­ræmi við kyn sitt, við höfnuðum tví­hyggj­unni og líkt og for­ver­ar okk­ar í bar­átt­unni börðumst við gegn markaðsvæðingu kven­lík­am­ans. Við tók­um slagi gegn nekt­ar­dans­stöðum, sem þá höfðu sprottið upp eins og gor­kúl­ur og aug­lýstu m.a. starf­semi sína með mynd­um af fá­klædd­um kon­um á skilti við Lauga­veg. Þetta var bar­átt­an við ljót­asta form kapí­tal­ism­ans, þar sem líf og lík­am­ar kvenna ganga kaup­um og söl­um. Við bent­um á sam­hengið milli klám­væðing­ar og kyn­ferðis­legs of­beld­is, sem er kerf­is­bund­inn vandi, ekki ein­stak­lings­bund­inn,“ hélt Halla áfram.

„Við sækj­um fram! Hátt í fimm­tíu sam­tök femín­ista, kvenna, launa­fólks, fatlaðs fólks og hinseg­in fólks hafa tekið hönd­um sam­an og lagt fram kröfu­gerð sem var kynnt 24. októ­ber í fyrra og stjórn­völd­um gefið ár til að mæta kröf­un­um. Kröf­urn­ar eru þríþætt­ar og lúta í fyrsta lagi að því að leiðrétta kerf­is­bundið van­mat á kvenna­störf­um og koma á raun­veru­legu launa­jafn­rétti. Í öðru lagi lúta þær að því að tak­ast á við ólaunaða vinnu kvenna og umönn­un­ar­ábyrgð, m.a. með því að loka umönn­un­ar­bil­inu. Í þriðja lagi snúa kröf­urn­ar að því að upp­ræta kyn­bundið of­beldi. Allt eru þetta kröf­ur sem stuðla að frelsi kvenna og kvára og gera sam­fé­lagið betra. Við eig­um að fylkja liði um kröf­ur kvenna­árs og byggja á rót­un­um. Við vit­um hvaða þýðingu 24. októ­ber árið 1975 hafði fyr­ir sam­fé­lagið og við skul­um ekki vera drag­bít­ar nú þegar fjöldi sam­taka reyn­ir að þoka því áfram.

Kæru fé­lag­ar.

Á alþjóðleg­um bar­áttu­degi launa­fólks reis­um við kröf­ur fyr­ir hönd sam­fé­lags­ins í dag og sam­fé­lags­ins til framtíðar. Við erum ekki hér sam­an kom­in til að gráta það sem bet­ur má fara, held­ur þvert á móti til að skerpa á sam­stöðunni og sækja fram. Á herðum okk­ar sem stönd­um í stafni í verka­lýðshreyf­ing­unni hvíl­ir mik­il ábyrgð. Oft eyðum við alltof mikl­um tíma í inn­byrðis átök, en ég minni líka á að slík átök hafa alltaf ein­kennt verka­lýðshreyf­ing­una. Og hún hef­ur þrátt fyr­ir þau, og stund­um kannski vegna þeirra, náð ótrú­leg­um ár­angri fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag. Sjálf mæti ég til leiks full af orku og fram­sýni og ætla, með fé­lög­um mín­um í stjórn VR, að taka slag­inn fyr­ir hönd launa­fólks á Íslandi í hví­vetna. Við höld­um stjórn­völd­um við efnið og krefj­um þau um að standa við gef­in lof­orð, við þjörm­um að fyr­ir­tækj­um sem hækka verð eft­ir eig­in hent­ug­leika eða brjóta á rétt­ind­um launa­fólks og við vinn­um inn­an fé­lags­ins og með öðrum fé­lög­um að því að tryggja að við mæt­um sam­hent til leiks í næstu kjara­samn­ing­um. Þró­un­in í lönd­um Evr­ópu er ekki til eft­ir­breytni og við ætl­um ekki að leika sama leik­inn!

Stönd­um vörð um sterk stétt­ar­fé­lög, sækj­um fram fyr­ir sam­fé­lagið.

Gleðileg­an bar­áttu­dag!“ lauk Halla Gunn­ars­dótt­ir ávarpi sínu.