„Við komum hér saman í skugga mikilla átaka í heiminum,“ hóf Halla Gunnarsdóttir, formaður verkalýðsfélagsins VR, ávarp sitt á Selfossi á verkalýðsdaginn, eftir að hafa ávarpað viðstadda og boðið gleðilega hátíð.
„Stríð geisar í Evrópu og þjóðarmorð stendur yfir í Palestínu, í heimshluta sem er allur meira eða minna sundurskorinn eftir stríðsátök. Hin pólitíska heimsskipan er að breytast; Bandaríkin, sem hafa verið í hlutverki einhvers konar heimsyfirvalds, eru hreinlega að spila út,“ sagði formaðurinn því næst.
Kvaðst Halla þá nýverið hafa sótt fund UNI Europa í Belfast á Norður-Írlandi, en þar fara evrópsk samtök stéttarfélaga í þjónustugreinum. „Það er þungt hljóð í mörgum kollegum okkar í Evrópu. Víða hefur staðið yfir skipulagt niðurbrot á starfsemi stéttarfélaga og vegið er harkalega að kjörum og réttindum launafólks. Ekki þarf að leita lengra en til Finnlands þar sem hægri stjórn Petteri Orpo hefur með beinum hætti fært vald frá stéttarfélögum til atvinnurekenda og takmarkað verkfallsrétt,“ sagði hún.
Um gervalla Evrópu hefði verkalýðshreyfingin veikst og aðild að stéttarfélögum dregist saman. Afleiðingarnar væru vægast sagt hörmulegar og hér þyrfti ekki að notast við neinar ágiskanir, hægt væri að horfa beint til þeirra landa þar sem niðurbrotið hefði átt sér stað, sagði Halla ómyrk í máli.
„Ójöfnuður eykst, laun lækka, hin ofsaríku verða ríkari, vinnuaðstæður verða verri, afkomuöryggi og félagslegt öryggi heyra sögunni til. Sífellt fleiri búa við fátækt þrátt fyrir fulla vinnu.
Fólk vinnur fulla vinnu en hefur ekki í sig og á.
Fólk sem áður taldist til millitekjuhópa hættir að geta lifað af launum sínum.
Stuðningur við pólitísk öfgaöfl eykst,“ hélt Halla ávarpi sínu til hinna vinnandi stétta áfram.
Nú væri svo komið að starfsbræður og -systur í Evrópu horfðu mörg hver skelfingu lostin upp á vinnandi fólk fylkja liði um pólitísk öfgaöfl, í von um betri tíð og bætt kjör. „Þessi stjórnmálaöfl boða þjóðernishyggju, hægri sinnaða efnahagsstefnu, andstöðu við aðgerðir gegn loftslagbreytingum og áherslu á svokölluð „hefðbundin fjölskyldugildi“, sem öðru nafni nefnast stuðningur við hefðbundin hlutverk kynjanna og andstaða við réttindi hinsegin fólks,“ sagði VR-formaðurinn.
Í Austurríki, Hollandi, Ítalíu, Svíþjóð, Finnlandi, Slóvakíu, Lettlandi og Ungverjalandi væru hægri öfgaflokkar annaðhvort í ríkisstjórn eða í stöðu til að hafa gríðarleg áhrif á stefnu stjórnvalda. Í mörgum öðrum löndum væru hægri öfgaflokkar með sterka stöðu í stjórnmálum og mætti þar nefna Þýskaland, Portúgal, Spán, Frakkland og Bretland.
„Þá má spyrja: hvað er að gerast í Evrópu?
Staðreyndin er sú að niðurbrot stéttarfélaga og virk niðurskurðarstefna hefur leitt til þess að sífellt fleira fólk býr við afkomuóöryggi. Nýr auður ratar til hinna ríkustu á sama tíma og samfélagslegir innviðir grotna niður. Fólk er hætt að geta gengið út frá því að lífsgæðin fari sífellt batnandi og að næsta kynslóð muni hafa það betra. Hið gagnstæða er að gerast, lífsgæðin fara dalandi og ungt fólk á sífellt erfiðara með að koma sér þaki yfir höfuðið, sækja sér menntun og hljóta tækifæri á vinnumarkaði. Þetta gerist ekki í tómarúmi og þetta er ekki náttúrulögmál. Þetta er afleiðing pólitískra ákvarðana og veldur því að fólk missir trúna á lýðræðið,“ sagði Halla.
Kjarabarátta íslenskra stéttarfélaga hefði lagt grunninn að lífsgæðum á Íslandi. Með sterkum stéttarfélögum í virkri kjarabaráttu hafi venjulegt fólk fengið helgarfrí, sumarfrí, kaffihlé, afmarkaðan vinnutíma, veikindarétt, lífeyrisréttindi og fæðingarorlof. Það hafi verið kjarabarátta sem gerði að verkum að fleira fólk gat lifað af laununum sínum, haldið heimili og jafnvel notið lífsins inn á milli. Þannig hafi hin íslenska millistétt orðið til. Í löndum þar sem stéttarfélög færu dalandi færi millistéttin hreinlega minnkandi. Fleiri byggju við kröpp kjör og auðstéttin bólgnaði út.
„Kæru félagar, við erum ekki í vari fyrir þessari þróun.
Í grunninn ræður hér ríkjum sama efnahagsstefna og í öðrum löndum Evrópu sem miðar að því að láta launafólk, leigjendur og skuldara taka skellinn þegar illa árar, einkum í gegnum háa stýrivexti. Við búum enn við einhverja hæstu stýrivexti á byggðu bóli, þeir eru hvergi hærri innan OECD og til að finna hærri stýrivexti þarf að leita í löndum þar sem geisa stríð eða annars konar átök. Venjulegt fólk á Íslandi borgar og borgar og borgar. Ríkissjóður situr uppi með allt of háa vexti og ungt fólk getur ekki komið sér þaki yfir höfuð. Hávaxtastefna er pólitísk stefna. Umsamdar launahækkanir mega sín einskis gagnvart gríðarlegum vaxtakostnaði, sífellt hækkandi húsaleigu og hærra matvöruverði.“
Sagði Halla stjórnvöld nú ætla sér að stytta bótatímabil atvinnuleysistrygginga um allt að ár í von um að með þeirri aðgerð þyrfti atvinnulaust fólk allt í einu ekki á framfærslu að halda og að það að þiggja fjárhagsaðstoð sveitarfélaga hvetti fólk til virkni. Stjórnvöld hefðu einnig gert að sínum vanhugsaðar hugmyndir Samtaka atvinnulífsins um auknar valdheimildir ríkissáttasemjara, sem vægju með beinum hætti að samningarétti stéttarfélaga.
„Gul stéttarfélög halda áfram að poppa upp. Nýjasta dæmið er Virðing, en einnig má minnast þess þegar Play stofnaði sitt eigið stéttarfélag, því auðvitað er þægilegra að semja við sjálfan sig en við samtök launafólks. Og ekki get ég látið hjá líða að nefna Félag svokallaðra lykilmanna sem herjar á félagsfólk VR í gegnum svæsna markaðssetningu með loforðum um sömu réttindi fyrir minni pening. Allt eru þetta gervistéttarfélög sem grafa undan hinni sameiginlegu kjarabaráttu, þeirri sömu og hefur lagt grunninn að lífsgæðum á Íslandi,“ sagði Halla enn fremur.
Á Íslandi fyndust nú stjórnmálaöfl sem döðruðu við hægri öfgastefnu í von um að hún auki við fylgi misvitra stjórnmálamanna. „Við eigum að hafna henni alfarið og muna að okkar helsta vörn liggur í sterkri og skipulagðri verkalýðshreyfingu! En við þurfum líka að hafna þeirri stefnu sem leiðir til þess að fólk finnur enga von hjá öðrum stjórnmálaöflum. Við eigum að hafna sveltistefnu í öllum sínum birtingarmyndum. Við segjum nei við háum vöxtum og holóttum vegum. Við segjum nei við sprungnu heilbrigðiskerfi og skólum sem geta ekki tekið utan um börn í vanda. Og við segjum nei við öllum tilraunum til að veikja stéttarfélög á Íslandi. Þau eru okkur lífsnauðsynleg,“ hélt Halla áfram.
„Kæru félagar.
Hin hreyfingin sem hefur byggt upp Ísland er kvennahreyfingin og nú á kvennaári lítum við um öxl og þökkum öllum þeim konum sem hafa með elju og þrotlausri baráttu byggt upp betra Ísland en við hefðum nokkru sinni eignast hefði þeirra baráttu ekki notið við.
Sjálf er ég stolt af því að rætur mínar liggja í kvennabaráttu. Ég tók þátt í stofnun Femínistafélags Íslands fyrir rúmum 20 árum síðan, þegar samfélagið hafði lítinn skilning á hugtakinu femínismi. Á vettvangi þess tókum við marga strembna slagi í samfélaginu. Við reistum kröfur um sýnileika kvenna og þátttöku þeirra í opinberri ákvarðanatöku og kröfðumst þess að vinnuframlag kvenna yrði metið að verðleikum, sérstaklega þeirra kvenna sem sinna ólaunaðri vinnu og hefðbundnum kvennastörfum á lélegum kjörum.
Við vöktum athygli á skaðlegum áhrifum kynmótunar þar sem stúlkum og drengjum er markvisst kennt að hegða sér í samræmi við kyn sitt, við höfnuðum tvíhyggjunni og líkt og forverar okkar í baráttunni börðumst við gegn markaðsvæðingu kvenlíkamans. Við tókum slagi gegn nektardansstöðum, sem þá höfðu sprottið upp eins og gorkúlur og auglýstu m.a. starfsemi sína með myndum af fáklæddum konum á skilti við Laugaveg. Þetta var baráttan við ljótasta form kapítalismans, þar sem líf og líkamar kvenna ganga kaupum og sölum. Við bentum á samhengið milli klámvæðingar og kynferðislegs ofbeldis, sem er kerfisbundinn vandi, ekki einstaklingsbundinn,“ hélt Halla áfram.
„Við sækjum fram! Hátt í fimmtíu samtök femínista, kvenna, launafólks, fatlaðs fólks og hinsegin fólks hafa tekið höndum saman og lagt fram kröfugerð sem var kynnt 24. október í fyrra og stjórnvöldum gefið ár til að mæta kröfunum. Kröfurnar eru þríþættar og lúta í fyrsta lagi að því að leiðrétta kerfisbundið vanmat á kvennastörfum og koma á raunverulegu launajafnrétti. Í öðru lagi lúta þær að því að takast á við ólaunaða vinnu kvenna og umönnunarábyrgð, m.a. með því að loka umönnunarbilinu. Í þriðja lagi snúa kröfurnar að því að uppræta kynbundið ofbeldi. Allt eru þetta kröfur sem stuðla að frelsi kvenna og kvára og gera samfélagið betra. Við eigum að fylkja liði um kröfur kvennaárs og byggja á rótunum. Við vitum hvaða þýðingu 24. október árið 1975 hafði fyrir samfélagið og við skulum ekki vera dragbítar nú þegar fjöldi samtaka reynir að þoka því áfram.
Kæru félagar.
Á alþjóðlegum baráttudegi launafólks reisum við kröfur fyrir hönd samfélagsins í dag og samfélagsins til framtíðar. Við erum ekki hér saman komin til að gráta það sem betur má fara, heldur þvert á móti til að skerpa á samstöðunni og sækja fram. Á herðum okkar sem stöndum í stafni í verkalýðshreyfingunni hvílir mikil ábyrgð. Oft eyðum við alltof miklum tíma í innbyrðis átök, en ég minni líka á að slík átök hafa alltaf einkennt verkalýðshreyfinguna. Og hún hefur þrátt fyrir þau, og stundum kannski vegna þeirra, náð ótrúlegum árangri fyrir íslenskt samfélag. Sjálf mæti ég til leiks full af orku og framsýni og ætla, með félögum mínum í stjórn VR, að taka slaginn fyrir hönd launafólks á Íslandi í hvívetna. Við höldum stjórnvöldum við efnið og krefjum þau um að standa við gefin loforð, við þjörmum að fyrirtækjum sem hækka verð eftir eigin hentugleika eða brjóta á réttindum launafólks og við vinnum innan félagsins og með öðrum félögum að því að tryggja að við mætum samhent til leiks í næstu kjarasamningum. Þróunin í löndum Evrópu er ekki til eftirbreytni og við ætlum ekki að leika sama leikinn!
Stöndum vörð um sterk stéttarfélög, sækjum fram fyrir samfélagið.
Gleðilegan baráttudag!“ lauk Halla Gunnarsdóttir ávarpi sínu.