Rakel Þórðardóttir
Árleg 1. maí hátíðarhöld verkalýðshreyfingarinnar fóru fram á Selfossi í morgun við góðar undirtektir. Dagskráin hófst með kröfugöngu frá Austurvegi 56 kl. 11:00, þar sem Lúðrasveit Selfoss og Hestamannafélagið Sleipnir leiddu hópinn að Hótel Selfoss þar sem hin formleg dagskrá og fjölskylduskemmtun var haldin.
Helga Kolbeinsdóttir frá FOSS stéttarfélagi stýrði dagskránni með miklum myndarbrag. Aðalræðu dagsins flutti Halla Gunnarsdóttir, formaður VR. Hún flutti kröftuga ræðu og fór yfir hvernig stéttarfélags baráttan um heim allan á undir högg að sækja sem og kvennabaráttan. María Friðmey Jónsdóttir flutti áhrifaríkt ávarp fyrir hönd nemenda við FSU. Báðar lögðu þær áherslu á mikilvægi kvenna í verkalýðsbaráttunni og þá vegferð sem enn er fram undan í jafnréttismálum.
Hátíðin bar þess merki að 2025 hefur verið útnefnt kvennaár í verkalýðshreyfingunni. Markmiðið með kvennaárinu er að draga fram framlag kvenna til verkalýðshreyfingarinnar í fortíð og samtíð, styrkja stöðu kvenna innan hreyfingarinnar og vekja athygli á þeim sértæku áskorunum sem konur mæta á vinnumarkaði. Sérstök áhersla er lögð á að konur gegni lykilhlutverkum í allri dagskrá ársins og það speglaðist vel í dagskrá dagsins.
Tónlistaratriði voru í höndum Júlí Heiðars og Dísu, og Leikfélag Hveragerðis vakti mikla kátínu með skemmtilegum lögum úr Ávaxtakörfunni. Fimleikadeildin sá um andlitsmálun fyrir börnin og boðið var upp á kaffi og veitingar.
Mæting var góð, mikil ánægja ríkti meðal gesta og hátíðin þótti afar vel heppnuð í alla staði. Með þátttöku sinni sýndu þeir sem tóku þátt glæsilega samstöðu og samhug í þágu réttinda launafólks – og að þessu sinni með sérstaka áherslu á jafnrétti kynjanna og virka þátttöku kvenna.